Saturday, August 26, 2006

 

dagurinn í dag...

Það er búið að vera fáránlega heitt hérna í dag. 30+. Eiginlega of heitt fyrir mig. Ég er satt best að segja búinn að vera hálf sveittur allan daginn. Spurning hvort maður verði beðinn um að skipta vinsamlegast um bol og setja poka í skóna svo það sulli ekki svona úr þeim-eins og gæinn þarna um árið:) (það er alltaf jafn góð saga).

Auður Erla gisti hjá okkur eftir föstudagspizzuna í gær. Grislós og hún tóku upp á því að vakna voða hress upp úr 6 í morgun. Engin leið að fá þau til að kúra eitthvað frameftir. Alltof aktív þessar rófur. Allavega. Ekkert annað að gera en að plokka stírurnar og hella upp á. Allt sett af stað nágrönnunum til mikillar óánægju. Auður var komin með skopparabolta sem hún dúndraði endurtekið í parketið um hálf sjöleytið. Fannst það ekkert smá gaman. Ég hefði á þeim tímapunkti verið til í að vera í heimsókn í kollinum á nágranna mínum sem þarf að láta sig hafa þessi ósköp. Hún skildi síðan ekkert í því þegar ég bað hana um að hætta-hitt fólkið væri að lúlla. Leit bara í kringum sig á sá mig, Köru og Gunnar Tuma vakandi. Og sagði síðan "enginn lúlla" og náði ekki alveg þessum leiðindum í mér.

Ég fór líka að keppa í fótbolta með Heklu. Hjólaði eitthvað lengst í rassgat til að komast að vellinum. Villtist og allt. Það var svo sem allt í lagi-fínt að hjóla í góðu veðri með góða tónlist í eyrunum (hlustaði á "nýju" Ampop plötuna sem er by the way rosa fín). En "Butcher" hefur framið sjálfsmorð og við andlát hans fæddist hinn "fullkomni" framliggjandi miðjumaður. Já, hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að ég væri að spila framarlega á vellinum. Væri í djúpinu milli miðju og sóknar. Satt best að segja nenni ég varla aftur fyrir miðju. Kannski bara búinn að uppfylla "varnar" kvótann fyrir lífstíð. Allavega. Þetta er rosa gaman. Gaman að spila 11 manna bolta aftur. Ég er samt ansi ryðgaður. Með lélegt touch og lengi að drulla þessu frá mér. En það er samt ennþá þannig að það heyrist ekki jafn mikið í öðrum leikmönnum og mér, og það eru heldur ekki margir sem ná að komast fram hjá mér. Ja, ef þeir gera það þá eru þeir bara sparkaðir niður-þannig að í rauninni kemst enginn framhjá mér. Það er svo fyndið að þó þetta eigi að vera svona "léttur bolti sem snýst bara um að hafa gaman" þá verða allir snar vitlausir um leið og flautað er til leiks. Skemmtilegt. Alveg fyrir mig. Hlaupa á eftir bolta og öskra. Hvað endurspeglar mig betur?

Friday, August 18, 2006

 

Pínu spöglerasjón...

Ég var að lesa Urban yfir morgunkaffinu. Urban er eitt af fríu staðarblöðunum hérna í Árósum. Ég var að lesa um "átökin við botn Miðjarðarhafs" og að illræmdur bandarískur barnamorðingi hefði fundist í Tælandi eftir að 10 voru liðin frá morðinu. Framdi hrottalegt morð á bandarískri stúlku. Ok, þessir fréttir sem slíkar eru kannski ekki aðalatriðin hérna. En þær vöktu mig til umhugsunar. Málið er hvernig við, ég og allir hinir, erum búin að "detach-a" okkur frá öllum hörmungum heimsins. Ég ætla ekkert að fara út í einhverjar "maðurinn er svo ógeðslegur"-pælingar. Ég næ því bara ekki hvernig við náum að losa okkur í burtu frá öllu ógeðinu sem á sér stað. Hvernig við getum lesið og horft á fréttir án þess að vökna um augun. Eða bara hreinlega hágrátið, með ekka og öllu tilheyrandi. Líklega er kjarnaástæðan sú að ef við myndum ekki aftengja okkur á einn eða annan hátt yrðum við klikkuð. Yfirbuguð af sorg á hverjum einasta degi.

Við fáum fréttaflutning frá t.d. "botni miðjarðarhafs" eða af "skuldum þriðja heimsins". Takið eftir orðalaginu sem er notað. Það er verið að segja okkur að fólkið sem á bágt og lifir við hörmungar búi í öðrum heimi en við. Fjarlægðarmyndunin er fáránlega mikil. Hún er ekki í kílómetrum talin eða sjómílum. Hún er talin í heimum. Augljóslega verður auðveldara að "losa sig" við óþægindatilfinninguna þegar fólkið sem um ræðir er ekki einu sinni fólk eins og "við hin" (það er náttúrulega óþægilegt að upplifa sorgina í gegnum fólkið og þess vegna viljum við helst ekki upplifa hana, fyrir vikið verður auðveldara að losa sig).

Síðan er annað sem ég hef tekið eftir í sambandi við það hvernig við upplifum samúð gagnvart bágstöddum annars staðar í heiminum. Það er þegar komið er á e-i tilfinningatengingu milli hörmungana, fólksins og okkar sem sitjum heima í stofu undir teppi með kaffi og súkkulaði. Þegar tilfinningatengingu er komið á þá rúllar samúðin af stað og heltekur okkur. Hafið þið tekið eftir því að þegar tónlist er t.d. spiluð með myndbrotum af "bágstöddum í þriðja heiminum" eða á mannamáli þeim sem eiga um sárt að binda annars staðar en á Íslandi eða Danmörku þá verðum við hrærð og eigum erfitt. Finnst ömurlegt hvernig komið er fyrir fólkinu sem við horfum upp á undir músík U2 eða "hjálpum þeim". Af hverju þarf músík eða annað dramatíserandi "vopn" til að láta okkur finna fyrir samúð? Mér finnst það skrítið. En þegar við finnum tenginguna við fólkið þá verðum við voða lítil, grátum flest við það að horfa upp á ömurðina. En þessi tilfinningatenging er líka notað gegn okkur. T.d. í tryggingaauglýngum þar sem hádramatísk tónlist er spiluð yfir mannlegum breyskleika. Hafið þið ekki grátið við á horfa á Sjóvá almennar auglýsingu. Það hef ég gert. En ég er alveg kaldur þegar ég sé fréttir þess efnis að hundruðir hafi látist þegar langdrægum bombum var varpað á íbúðarbyggð og árásin heppnaðist af því að tveir skæruliðar féllu í árásinni. Hugsa með sjálfum mér reiður að það sé ekki alveg í lagi þegar svonalagað er í orden-en ég fer ekki að gráta, ég upplifi ekki sorgina með öllu þessu látna fólki og aðstandendum þess. Bara reiði yfir ruglinu og vanvirðingunni fyrir mannkyninu.

Ok, auðvitað eru mýmargar ástæður fyrir þessari aftengingu okkar. Ekki bara þessar tvær eða öllu heldur ein sem ég nefndi. En það er samt sem áður nokkuð magnað hvað við erum dugleg að brynja okkur fyrir erfiðleikum og óþægilegum tilfinningum. Við berjumst gegn því þangað til við getum ekki barist lengur við það. Eða þar til "Where the streets have no name" byrjar með U2 og við sjáum barn deyja úr sulti í orðsins fyllstu merkingu. Þá grátum við yfir eymdinni. Þá langar okkur að hjálpa. En við erum ekki nálægt því að vökna um augum þegar við sjáum staðreyndir þess efnis að 34.000 börn deyja daglega úr fátækt. Auðvitað er erfitt að horfa upp á barn deyja en það hlýtur að vera 34.000 sinnum erfiðara að horfa upp 34.000 börn deyja. Ekki satt? Bara einföld lógík. Nei, þannig virðist þetta ekki fúnkera. Ömurðin sem slík virðist ekki vekja upp tilfinningar (því ef hún gerði það værum við með ekkasog þegar við læsum svona átakanlegar staðreyndir) heldur bara lagið sjálft. En fyrst að svo er gætum við þá ekki bara allt eins kveikt á geislaspilaranum og upplifað sömu tilfinningar?

Þessi pæling er ekkert hraun. Hvorki á sjálfan mig né neinn annan. Hún er bara pæling. Við gætum kannski breytt henni í fullyrðingu (sem augljóslega væri auðvelt að velta). Fullyrðingu sem heldur því fram að Vestrænt fólk upplifi ekki samúð með hörmungum annars fólks statt fjarri þeim án þess að komið sé á tilfinninga tengingu, s.s. tónlist. Og þá er tónlistin í raun ástæðan fyrir samúðar tilfinningunum.

Elli.

Wednesday, August 16, 2006

 

kominn heim aftur...

jæja... við erum komin heim. Ég og börnin. Erla varð að vinna eitthvað áfram. Kemur 1. sept. Ferðin gekk sómasamlega. Að ferðast með Köru er skal ég segja ykkur betra en að ferðast með mörgum fullorðnum. Hún kann þetta allt saman-út í gegn. Pollróleg, rosa meðvituð um að gera allt rétt- fara í rétta lest og svona. Allavega, þetta gekk fínt fyrir utan pínu rugl þegar við fórum í rangan vagn í lestinni og þurftum að hlaupa út á næstu stoppustöð. Svolítið stress. Krakkarnir hlupu nú eiginlega ekki, ég fleygði þeim og töskunum á milli vagna því ég var svo stressaður að hurðin myndi lokast á mig og krakkarnir eða töskurnar komnar inn. Það var nefnilega búið að segja mér sögu af íslenskri konu sem var búin að koma barninu sínu inn í lest þegar hurðin lokast og hún fyrir utan með töskurnar. Ég ætlaði sem sé ekki að láta það gerast og því var öllu klabbinu bara dröslað á milli í flýti. Engin virðing borin fyrir hlutlegum eða mannlegum verðmætum. Öllu grýtt inn í lest og af stað. En þetta reddaðist og með smá huggi og faðmlagi fyrirgaf GT mér þessi læti-enda fékk hann og Kara að launum smartís þannig að það var svo sem aldrei spurning hvort fyrirgefningin kæmi.

Núna er krakkarnir að byrja annars vegar í skólanum og hins vegar í leikskólanum. Það var fyrsti skóladagur hjá Köru í gær. Ég var búinn vera svolítið lítill yfir þessu öllu og fannst þetta erfitt. Var hræddur um að hún myndi ekkert fíla þetta og fannst erfitt að vera útlendingur og vera ekki með allt á tæru. Þetta tilfinningaflóð var óþarfi! Hún fékk æðislegar móttökur (sem og náttúrulega öll hin börnin), allt var skipulagt í þaula og öllum spurningum (áður en þær voru spurðar) var svarað. Hún smókaði síðan sjálfa kennslustundina. Ég var pínu smeykur um að hún væri eitthvað ryðguð í dönskunni. En það var líka óþarfi! Kennarinn spurði hana eftir tímann hvort hún hefði skilið allt og þá svaraði sú stutta; "já, auðvitað. Ég er náttúrulega búin að eiga heima í Danmörku í ár!". Hún var rosa aktív, spurði mikið (eftir að hafa rétt upp hendi eins og hennar er von og vísa) og svaraði síðan líklega sjálf öllum spurningunum sínum ef ég þekki hana rétt. Hún hefur allavega vitað svarið áður en það kom. Í dag var svo hennar fyrsti fulli skóladagur þar sem farið var í fritidshjem eftir skóla. Hún valsaði um skólann í morgun, fimm mínútur í átta, rosa örugg og leiðbeindi mér og Gunnari Tuma í gegnum skólann. Fann stofuna sína, settist í stólinn sinn og knúsaði okkur bless. Allt á tæru-mín mætt í skólann.

Gunnar Tumi fór í sinn fyrsta leikskóladag í dag (ekki vuggestuen). Hann er á gömlu deildinni hennar Köru. Honum var rosa vel tekið og haldin var lítil veisla fyrir hann. Hann var boðinn velkominn af öllum krökkunum á deildinni og svo var borðað popp og drukkinn djús. Alvöru partý. Hann var þvílíkt sáttur. Fékk að gefa fiskunum (það er fiskabúr á deildinni hans). Ég var pínu stressaður yfir því að minn maður yrði ekki alveg par sáttur við þetta og hringdi eftir 2 tíma til að tékka á gutta. Fóstran hans róaði mig og sagði að þetta gengi eins í sögu. Að hann skildi allt sem sagt væri við hann og hann væri úti að leika með vinum sínum af vuggestuen sem líka væru komnir yfir á "stóra" leikskólann. Hann var bara hálfan daginn í dag. Ég sótti hann um 12. Hann neitaði í fyrstu að fara heim. Fannst of gaman til að yfirgefa stuðið. En greyið var samt alveg búinn. Lagðist bara í gangstéttina þegar við vorum hálfnaðir heim. Gat ekki meira. Hann er núna sofandi. Það er erfitt að vera 3ja ára og byrja í nýjum leikskóla.

Þau eru búin að vera ótrúleg. Standa sig ótrúlega vel. Ég er ekki viss um að ég myndi standa mig með sama hætti ef mér væri fleygt inn í algjörlega nýtt umhverfi einntveirogbingó. Eða eins og einn merkur maður sagði eitt sinn;"þau brjóta í manni hjartað þessir skrattar". Og það er alveg satt (fyrir utan skratta-partinn). Þau fylla mann svo miklu stolti að maður veit ekki alveg hvernig maður á að vera.

Með kveðju,
Elli.

Tuesday, August 08, 2006

 

stigaleiða byttan......

Í dag er þriðjudagur og um helgina bætti ég persónulegt met. Met sem sumir eru kannski lítt stoltir af eða hreint og beint leyna en ég geri það hins vegar ekki vegna þess að ég hef alltaf verið aðeins of correct. Skynsami gæinn. En skynsami gæinn var drepinn um helgina þegar ég fór út á lífið þrjá daga í röð. Þessu hef ég aldrei áður náð. Og ástæðan er kannski ekki einungis sú að ég hef alltaf verið svo correct. Hún er líka fólgin í því að ég varð alltaf svo þunnur eftir djamm að ég orkaði ekki svona "make it-take it". Svo að uppi stendur stoltur en jafnframt pínu subbulegur Elli. En hey, það eru ekki allir sem eru menn í þetta (pínu skot á Hrannar og innviða slóðina sem hann skildi eftir í fossvoginum á laugardagin;)).

Núna styttist óðfluga í það að ég og gríslós fljúgum út. Eða eins og þau segja jafnan "fyrst förum við í bíl, svo förum við flugvél, svo förum við í lest og síðan förum við í leigubíl" og svo bætir Kara við hálfþreytt á þessu "...og svo þurfum við að labba upp allar tröppurnar með töskurnar". Hún verður snögg að venjast tröppunum eða helvítis stiganum eins og hann er venjulega kallaður meðal fullorðinna sem eiga leið upp þær.

Jæja, verð svo duglegur að blogga þegar ég kem út. Ætla að fara að bæta fleiri met. Detta í það á þriðjudegi...ég hef aldrei gert það áður. Ja eða hrynja í það með kardimommudropum (það er ekki til neinn bjór)...það hef ég heldur aldrei gert áður. Og geri líklega aldrei. Held að ég beili á því að setja fleiri met í bili. Set kannski einhver met "í félagi við aðra menn" úti sveit um helgina.

Bæjó, Elli.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Subscribe to Posts [Atom]