Wednesday, August 16, 2006

 

kominn heim aftur...

jæja... við erum komin heim. Ég og börnin. Erla varð að vinna eitthvað áfram. Kemur 1. sept. Ferðin gekk sómasamlega. Að ferðast með Köru er skal ég segja ykkur betra en að ferðast með mörgum fullorðnum. Hún kann þetta allt saman-út í gegn. Pollróleg, rosa meðvituð um að gera allt rétt- fara í rétta lest og svona. Allavega, þetta gekk fínt fyrir utan pínu rugl þegar við fórum í rangan vagn í lestinni og þurftum að hlaupa út á næstu stoppustöð. Svolítið stress. Krakkarnir hlupu nú eiginlega ekki, ég fleygði þeim og töskunum á milli vagna því ég var svo stressaður að hurðin myndi lokast á mig og krakkarnir eða töskurnar komnar inn. Það var nefnilega búið að segja mér sögu af íslenskri konu sem var búin að koma barninu sínu inn í lest þegar hurðin lokast og hún fyrir utan með töskurnar. Ég ætlaði sem sé ekki að láta það gerast og því var öllu klabbinu bara dröslað á milli í flýti. Engin virðing borin fyrir hlutlegum eða mannlegum verðmætum. Öllu grýtt inn í lest og af stað. En þetta reddaðist og með smá huggi og faðmlagi fyrirgaf GT mér þessi læti-enda fékk hann og Kara að launum smartís þannig að það var svo sem aldrei spurning hvort fyrirgefningin kæmi.

Núna er krakkarnir að byrja annars vegar í skólanum og hins vegar í leikskólanum. Það var fyrsti skóladagur hjá Köru í gær. Ég var búinn vera svolítið lítill yfir þessu öllu og fannst þetta erfitt. Var hræddur um að hún myndi ekkert fíla þetta og fannst erfitt að vera útlendingur og vera ekki með allt á tæru. Þetta tilfinningaflóð var óþarfi! Hún fékk æðislegar móttökur (sem og náttúrulega öll hin börnin), allt var skipulagt í þaula og öllum spurningum (áður en þær voru spurðar) var svarað. Hún smókaði síðan sjálfa kennslustundina. Ég var pínu smeykur um að hún væri eitthvað ryðguð í dönskunni. En það var líka óþarfi! Kennarinn spurði hana eftir tímann hvort hún hefði skilið allt og þá svaraði sú stutta; "já, auðvitað. Ég er náttúrulega búin að eiga heima í Danmörku í ár!". Hún var rosa aktív, spurði mikið (eftir að hafa rétt upp hendi eins og hennar er von og vísa) og svaraði síðan líklega sjálf öllum spurningunum sínum ef ég þekki hana rétt. Hún hefur allavega vitað svarið áður en það kom. Í dag var svo hennar fyrsti fulli skóladagur þar sem farið var í fritidshjem eftir skóla. Hún valsaði um skólann í morgun, fimm mínútur í átta, rosa örugg og leiðbeindi mér og Gunnari Tuma í gegnum skólann. Fann stofuna sína, settist í stólinn sinn og knúsaði okkur bless. Allt á tæru-mín mætt í skólann.

Gunnar Tumi fór í sinn fyrsta leikskóladag í dag (ekki vuggestuen). Hann er á gömlu deildinni hennar Köru. Honum var rosa vel tekið og haldin var lítil veisla fyrir hann. Hann var boðinn velkominn af öllum krökkunum á deildinni og svo var borðað popp og drukkinn djús. Alvöru partý. Hann var þvílíkt sáttur. Fékk að gefa fiskunum (það er fiskabúr á deildinni hans). Ég var pínu stressaður yfir því að minn maður yrði ekki alveg par sáttur við þetta og hringdi eftir 2 tíma til að tékka á gutta. Fóstran hans róaði mig og sagði að þetta gengi eins í sögu. Að hann skildi allt sem sagt væri við hann og hann væri úti að leika með vinum sínum af vuggestuen sem líka væru komnir yfir á "stóra" leikskólann. Hann var bara hálfan daginn í dag. Ég sótti hann um 12. Hann neitaði í fyrstu að fara heim. Fannst of gaman til að yfirgefa stuðið. En greyið var samt alveg búinn. Lagðist bara í gangstéttina þegar við vorum hálfnaðir heim. Gat ekki meira. Hann er núna sofandi. Það er erfitt að vera 3ja ára og byrja í nýjum leikskóla.

Þau eru búin að vera ótrúleg. Standa sig ótrúlega vel. Ég er ekki viss um að ég myndi standa mig með sama hætti ef mér væri fleygt inn í algjörlega nýtt umhverfi einntveirogbingó. Eða eins og einn merkur maður sagði eitt sinn;"þau brjóta í manni hjartað þessir skrattar". Og það er alveg satt (fyrir utan skratta-partinn). Þau fylla mann svo miklu stolti að maður veit ekki alveg hvernig maður á að vera.

Með kveðju,
Elli.

Comments:
Oh, þetta eru svo frábærir krakkar. Gangi ykkur vel öllum þremur!

Kv. Bryndís
 
sniff sniff ... sakna ykkar! Fyrsti skóla- og leikskóladagurinn verður endurtekinn þegar mamma sín kemur út ... Bara spólað tilbaka!
 
Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Subscribe to Posts [Atom]