Friday, October 27, 2006

 

Pabbi, er pizzadagur í dag?

Börnin mín eru afar vanaföst. Einn vaninn, sem líklega er orðinn að hefð, er að borða heimabakaða pizzu á föstudögum. Annað hvort hérna heima eða hjá Lindu og Hrannari. Í morgun fór ég með Gunnar Tuma í leikskólann og hann spurði nokkrum sinnum á leiðinni hvaða dagur væri í dag (eins og hans er von og vísa... pínu obsessívur sjáiði til). Ég svaraði alltaf því sama, "föstudagur", enda ekki kominn nýr dagur eftir þessar örfáu sekúndur sem liðu milli spurninga. Eftir svolitla stund segir hann síðan; "nei pabbi. Í dag er pizzudagur".

Áðan skaust ég út í skóla til Köru til að fara með hrekkjavökubúning til hennar. Eftir pínu spjall spurði hún mig hvort það væri ekki örugglega pizza í dag? Ég svaraði játandi. Svo segir hún "pabbi, föstudagar ættu eiginlega að heita pizzudagar". Ég svaraði "jaaá, en það væri nú kannski ruglingslegt fyrir alla aðra sem ekki skildu hvaða dagar það væru". "Já, en pabbi þá segjum við þeim það bara".

Ég er hrifinn af hefðum og venjum. Ég held að Kara hafi rétt fyrir sér. Mér finnst að föstudagar eigi að heita pizzudagar. Nú, og ef einhver skilur ekki hvað átt er við með því "þá segjum við honum það bara". Allt er þó gott í hófi. Meika ekki alveg Bæjaralands-pakkann þar sem hefðir eru svo margar og ríkar að mestur hluti hvers einasta dags er planaður í kringum komandi eða núverandi hefðir. Þegar við bjuggum í Þýskalandi fékk ég ósjaldan að heyra frasann "já, við erum nú vön að gera þetta svona" eða "hefðin er nú að gera þetta svona". Meira að segja í handboltaleikjum héldu þeir fast í hefðirnar sínar (sem voru ekki góðar innan þessa handboltaliðs vegna þess að þeir voru afskaplega slakir í handbolta). "já, við erum vanir að spila þetta svona og þess vegna höldum við því áfram". Yndisleg rök og vanafesta. Sérstaklega hagnýtt þegar þú tapar flest öllum leikjum á "hefðinni þinni".

Fyrir utan þennan pínu útúrdúr til suður Þýskalands þá hvet ég alla til að koma sér upp einhverjum skemmtilegum venjum sem seinna verða að hefðum. Ég vil gjarnan vera með ef einhver lumar á einhverri sniðugri hugmynd sem hægt væri að gera að vana. Til dæmis, alltaf annan hvern þriðjudag eru bíódagar. Eða, á einn fimmtudag í mánuði eru "úti að borða" kvöld.

Monday, October 23, 2006

 

Lifi...

ég er á lífi...bara ekkert rosalega duglegur í þessu bloggi. Er alveg að detta í gírinn. Var að vísu búinn að lofa sjálfum mér því að gera þetta ekki nema þegar ég nenni. Gera þetta ekki að kvöð. Held ég standi við það.

Heyri í ykkur...fyrr en seinna.

Elli

Wednesday, October 11, 2006

 

Samúel...

Hvar værum við Íslendingar staddir ef við ættum ekki Samúel Örn Erlingsson til að lýsa fyrir okkur íþróttaleikjum? Hann er yndislegur þessi maður. Ég er að hlusta á lýsinguna Ísland-Svíþjóð og Hr. Samúel er á mæknum. Hér kemur ein setningin frá kappanum; "það væri nú laglegt ef fuglar ætluðu að fljúga með hendur meðfram síðum". Ég bið ykkur um að hafa í huga að maðurinn er að lýsa fótboltaleik. Hvað með hendur fuglana? Þekkið þið til margra fuglategunda með hendur. Flestar sem ég þekki til hafa vængi. Hvað kemur handaflug fugla fótboltaleik við? En hann er samt æðislegur. Algjör þjóðargersemi. Áfram Sammi!!! (eina sem ég get sagt...fótboltalandsliðið okkar er svo afspyrnu slakt).

Monday, October 09, 2006

 

I don´t care if monday´s....

neibb, ég er ekkert blár á þessum öndvegis mánudegi skal ég segja ykkur. Dansandi glaður að læra á mánudegi. Finnst eins og ég tilheyri fáránlegum forréttindahópi að fá að hafa börnin mín á leikskóla og í skóla. Get eitt heilum degi í að læra og fara í ræktina og ég veit ekki hvað og hvað. Verkfallið hérna er búið og rútínan byrjuð. GT var ekkert smá ánægður í morgun að fara á leikskólann. Valhoppaði alla leiðina, knúsaði mig svo bless og tók sprettinn inn á deild. Pedagógarnir voru allir svo meyrir og glaðir að hitta börnin aftur að þær slógust held ég bara við tárin. Það er búið að vera minna rugl í kringum Köru af því það var alltaf skóli hjá henni. En fritidshjemmet opnaði aftur í dag. Mín var þvílíkt sátt við það. Eins og henni er einni lagið þá laumaði hún e-u í vasann hjá sér áður en hún labbaði út (hún er sneeky þessi rófa) og ætlar greinilega eitthvað að bralla með vinkonum sínum á fritidshjem eftir skóla. Ég gerði bara eins og góðu foreldri sæmir...horfði í hina áttina. Enda bara ánægður ef hún á vini til að bralla eitthvað með.

Annars var ég næstum því búinn að skemma hið mikla og nýtilkomna félagslíf dóttur minnar í gær. Um morguninn hringdi mamma einnar vinkonu Köru og spurði hvort hún mætti leika við Köru um eftirmiðdaginn og að Kara myndi fara til þeirra. Mér fannst það fínt (við Erla vorum pínu framlág eftir laugardagskvöldið...kem að því seinna) og við gerðum "aftale". Seinna um daginn þá hjóla ég með Köru til þessarar vinkonu sinnar sem heitir Kirstine. Hún og foreldrar hennar verða pínu hissa þegar við mætum en þær eru voða góðar vinkonur þannig að þær léku bara saman. Þegar ég er að hjóla heim fannst mér þau eitthvað svo skrítin að ég fór að spá hvort þetta hafði verið rétta stelpan! Kem heim og spöglera eitthvað í þessu með Erlu. Erla hringir í fólkið þar sem Kara er að leika og þá kemur á daginn að þau höfðu ekkert hringt. Erla greyið lenti í hálf aumingjalegu símtali að afsaka þetta og foreldrar stelpunnar fóru þá í flækju af því þá er eins og maður verði alltaf að hringja á undan sér (svona rembihnútur...allir í flækju og allir að afsaka sig). Shit! Núna var einhver stelpa að bíða eftir Köru og ég mundi ekkert hver það var!!! Foreldrarnir örugglega brjálaðir út af dissinu!! Erla fór í það að hringja í allar vinkonur Köru í bekknum og foreldrarnir héldu náttúrulega að hel. útlendingarnir (aka. VIÐ) væru orðnir eitthvað geðveikir. Eftir nokkur mjög vandræðaleg símtöl fundum við út hver þetta var og Erla hringdi eins og aumingi að afsaka það að ég hefði verið hálf sofandi og ruglast og allt í flækju (Erla er bæði betri í félagslegum samskiptum og hversdaglegri dönsku en ég þannig að hún lenti í því að þurfa að hringja). Fuck! Ég get sagt ykkur það að fyrir var ég hálf óöruggur gagnvart "félagslífinu" hennar Köru og öllum samskiptunum við hina foreldrana en núna...ég á ekki breik núna. En þetta blessaðist allt á endanum. Foreldrarnir sem við "svikum" voru alveg góðir á því og fannst þetta held ég bara pínu fyndið. Að ég væri svona vitlaus!! En blessuð stelpan kemur bara um næstu helgi í staðinn.

Á laugardagskvöldið kíktum við og Linda út ásamt fleiru góðu fólki. Það var voða fínt og ekki frásögunar færandi nema fyrir þær sakir að við fórum á karíóki-bar þar sem við slógum í gegn. Linda tók Girls just wanna have fun, Erla tók faith og ég og Jón tókum Queen slagarann I got to break free. Það var víst mikið talað um það af áhorfendum að annað eins par (ég og Jón) hefði aldrei sést taka þennan "semi-gay" slagara. Það var ekki feiltónn sunginn skal ég segja ykkur. Og þið sem þekkið til Hr. Mercury þá vitiði að hann kunni þetta alveg. Þetta var ekki síðra. Ótrúlegt sögðu allir. Ótrúlegt. Aftur. Meira. Við fengum vart næði til að anda eftir frammistöðuna. Erla þurfti að berja í burtu æsta, danska kvenkyns aðdáendur Queen sem voru greinilega búin að finna sér ný (og í þetta skiptið vel tennt) átrúnaðargoð. Það er alveg áreiðanlegt að heimsóknir á þennan stað verða tíðari í framtíðinni. Allavega ríf ég í mækinn þegar ég á leið framhjá.

Ætla að fara lesa...
Eigið góðan dag.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Subscribe to Posts [Atom]