Friday, August 18, 2006

 

Pínu spöglerasjón...

Ég var að lesa Urban yfir morgunkaffinu. Urban er eitt af fríu staðarblöðunum hérna í Árósum. Ég var að lesa um "átökin við botn Miðjarðarhafs" og að illræmdur bandarískur barnamorðingi hefði fundist í Tælandi eftir að 10 voru liðin frá morðinu. Framdi hrottalegt morð á bandarískri stúlku. Ok, þessir fréttir sem slíkar eru kannski ekki aðalatriðin hérna. En þær vöktu mig til umhugsunar. Málið er hvernig við, ég og allir hinir, erum búin að "detach-a" okkur frá öllum hörmungum heimsins. Ég ætla ekkert að fara út í einhverjar "maðurinn er svo ógeðslegur"-pælingar. Ég næ því bara ekki hvernig við náum að losa okkur í burtu frá öllu ógeðinu sem á sér stað. Hvernig við getum lesið og horft á fréttir án þess að vökna um augun. Eða bara hreinlega hágrátið, með ekka og öllu tilheyrandi. Líklega er kjarnaástæðan sú að ef við myndum ekki aftengja okkur á einn eða annan hátt yrðum við klikkuð. Yfirbuguð af sorg á hverjum einasta degi.

Við fáum fréttaflutning frá t.d. "botni miðjarðarhafs" eða af "skuldum þriðja heimsins". Takið eftir orðalaginu sem er notað. Það er verið að segja okkur að fólkið sem á bágt og lifir við hörmungar búi í öðrum heimi en við. Fjarlægðarmyndunin er fáránlega mikil. Hún er ekki í kílómetrum talin eða sjómílum. Hún er talin í heimum. Augljóslega verður auðveldara að "losa sig" við óþægindatilfinninguna þegar fólkið sem um ræðir er ekki einu sinni fólk eins og "við hin" (það er náttúrulega óþægilegt að upplifa sorgina í gegnum fólkið og þess vegna viljum við helst ekki upplifa hana, fyrir vikið verður auðveldara að losa sig).

Síðan er annað sem ég hef tekið eftir í sambandi við það hvernig við upplifum samúð gagnvart bágstöddum annars staðar í heiminum. Það er þegar komið er á e-i tilfinningatengingu milli hörmungana, fólksins og okkar sem sitjum heima í stofu undir teppi með kaffi og súkkulaði. Þegar tilfinningatengingu er komið á þá rúllar samúðin af stað og heltekur okkur. Hafið þið tekið eftir því að þegar tónlist er t.d. spiluð með myndbrotum af "bágstöddum í þriðja heiminum" eða á mannamáli þeim sem eiga um sárt að binda annars staðar en á Íslandi eða Danmörku þá verðum við hrærð og eigum erfitt. Finnst ömurlegt hvernig komið er fyrir fólkinu sem við horfum upp á undir músík U2 eða "hjálpum þeim". Af hverju þarf músík eða annað dramatíserandi "vopn" til að láta okkur finna fyrir samúð? Mér finnst það skrítið. En þegar við finnum tenginguna við fólkið þá verðum við voða lítil, grátum flest við það að horfa upp á ömurðina. En þessi tilfinningatenging er líka notað gegn okkur. T.d. í tryggingaauglýngum þar sem hádramatísk tónlist er spiluð yfir mannlegum breyskleika. Hafið þið ekki grátið við á horfa á Sjóvá almennar auglýsingu. Það hef ég gert. En ég er alveg kaldur þegar ég sé fréttir þess efnis að hundruðir hafi látist þegar langdrægum bombum var varpað á íbúðarbyggð og árásin heppnaðist af því að tveir skæruliðar féllu í árásinni. Hugsa með sjálfum mér reiður að það sé ekki alveg í lagi þegar svonalagað er í orden-en ég fer ekki að gráta, ég upplifi ekki sorgina með öllu þessu látna fólki og aðstandendum þess. Bara reiði yfir ruglinu og vanvirðingunni fyrir mannkyninu.

Ok, auðvitað eru mýmargar ástæður fyrir þessari aftengingu okkar. Ekki bara þessar tvær eða öllu heldur ein sem ég nefndi. En það er samt sem áður nokkuð magnað hvað við erum dugleg að brynja okkur fyrir erfiðleikum og óþægilegum tilfinningum. Við berjumst gegn því þangað til við getum ekki barist lengur við það. Eða þar til "Where the streets have no name" byrjar með U2 og við sjáum barn deyja úr sulti í orðsins fyllstu merkingu. Þá grátum við yfir eymdinni. Þá langar okkur að hjálpa. En við erum ekki nálægt því að vökna um augum þegar við sjáum staðreyndir þess efnis að 34.000 börn deyja daglega úr fátækt. Auðvitað er erfitt að horfa upp á barn deyja en það hlýtur að vera 34.000 sinnum erfiðara að horfa upp 34.000 börn deyja. Ekki satt? Bara einföld lógík. Nei, þannig virðist þetta ekki fúnkera. Ömurðin sem slík virðist ekki vekja upp tilfinningar (því ef hún gerði það værum við með ekkasog þegar við læsum svona átakanlegar staðreyndir) heldur bara lagið sjálft. En fyrst að svo er gætum við þá ekki bara allt eins kveikt á geislaspilaranum og upplifað sömu tilfinningar?

Þessi pæling er ekkert hraun. Hvorki á sjálfan mig né neinn annan. Hún er bara pæling. Við gætum kannski breytt henni í fullyrðingu (sem augljóslega væri auðvelt að velta). Fullyrðingu sem heldur því fram að Vestrænt fólk upplifi ekki samúð með hörmungum annars fólks statt fjarri þeim án þess að komið sé á tilfinninga tengingu, s.s. tónlist. Og þá er tónlistin í raun ástæðan fyrir samúðar tilfinningunum.

Elli.

Comments: Post a Comment

Subscribe to Post Comments [Atom]





<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Subscribe to Posts [Atom]